Ábyrgð

Ábyrgðarskilmálar þessir gilda fyrir einangrunargler sem afgreitt er frá verksmiðju

ÁBYRGÐARSKILMÁLAR

Ábyrgðin nær yfir gallað einangrunargler, sem þá er bætt með nýju einangrunargleri. Ábyrgð á einangrunargleri gildir í fimm ár frá útgáfu reiknings.  Nær ábyrgðin einungis til afhendingar nýs glers á byggingarstað, ef hann er innan bæjarmarka framleiðanda, eða til móttökustöðvar viðurkenndra flutningsaðila. Ábyrgðin nær ekki til ísetningar. Ábyrgðin tekur til galla vegna móðu og eða óhreininda milli glerja. Um ábyrgð vegna annarra hugsanlegra galla gilda ákvæði laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.

Endurnýjað gler vegna galla opnar ekki nýjan ábyrgðartíma.

ATRIÐI SEM ERU UNDANÞEGIN ÁBYRGÐ

Ábyrgðin nær ekki til eftirtalinna atriða:
– Kostnaðar við verkpalla, krana eða annars kostnaðar við að koma upp aðstöðu vegna framkvæmdarinnar.
– Kostnaðar við byggingarvinnu eða annarrar vinnu við að taka í sundur eða breyta byggingarhlutum sem tengdir eru glugganum.
– Kostnaðar við frágang, t.d. við múrverk, smíði, málningu og annað þess háttar.

SKILYRÐI ÞESS AÐ ÁBYRGÐ VERÐI VIRK

Ábyrgðin gildir aðeins ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:

– Að þess hafi verið gætt að rúðan yrði ekki fyrir óeðlilegum þvingunum, hnjaski, höggum eða hreyfingu á gluggaefni.
– Að þess hafi verið gætt að rúðan yrði ekki fyrir skemmdum vegna múrhúðunarefna, frostþenslu, rangrar geymslu eða af völdum ólífrænna efna.
– Að þess hafi verið gætt að rúðan hafi ekki hlotið óeðlilega meðhöndlun, t.d. við slípun, sandblástur, málun eða við yfirborðsmeðhöndlun á annan hátt.
– Að glugganum sé haldið eðlilega við.
– Að glerið hafi verið greitt að fullu.

BROTAÁBYRGÐ

Brotaábyrgð framleiðanda lýkur þegar glerið hefur verið afhent kaupanda eða verið afhent á móttökustað viðurkennds flutningsaðila.

MEÐFERÐ KVARTANA

Tilkynning um galla skal að jafnaði berast til síðasta liðs í afgreiðslunni, þ.e. söluaðila, iðnaðarmanns, framleiðanda glugga eða einingarhúsa. Í tilvikum þegar þetta er ekki unnt, skal hafa samband við glerframleiðandann. Þegar tilkynnt er um galla skal eftir því sem unnt er, gefa eftirtaldar upplýsingar:
– Nafn kaupanda og heimilisfang.
– Hvar glerið er staðsett.
– Nafn þess sem seldi glerið.
– Nafn þess sem glerjaði.
– Hvenær glerið var afhent. Ef viðkomandi getur ekki lagt fram reikning um það hvenær glerið var keypt, skal viðkomandi glerframleiðandi, sem framleitt hefur rúðuna samkvæmt merkingu inni í henni, gefa upp hvenær hún var afgreidd.
– Hvenær var glerjað.
– Fjöldi skemmdra rúða.
– Stærð á gleri, þykkt þess og loftbil.
– Tegund glers.
– Ástæða kvörtunar.Framleiðandi glers ákveður hvort frekari rannsókn fer fram á gallanum. Í þeim tilvikum er kostnaður greiddur af framleiðanda, ef galli reynist vera á framleiðsluvöru hans, að öðrum kosti greiðist kostnaður af þeim sem kvörtun bar fram.

GÆÐASTAÐLAR OG FRAMLEIÐSLUEFTIRLIT.
EFTIRLITSAÐILI ER BRITISH STANDARD Á ÍSLANDI, BSI.

Íspan, hefur gert samkomulag við BSI um framleiðslueftirlit og gerða- og gæðaprófanir á einangrunargleri sem felur í sér eftirtalda þætti:
– Eftirlit með efni til framleiðslu á einangrunargleri.
– Einangrunargler sent til gæðaprófana hjá BSI á Englandi til að uppfylla allar kröfur vegna CE-vottunar og gæðavottumar framleiðslunnar.
-Reglulegar heimsóknir í fyrirtækið, þar sem einstakir verkþættir framleiðslunnar eru teknir út, t.d. málsetning, þvottur, merking og geymsla. Jafnframt eru tekin sýni.
-Þessi samvinna veitir Íspan CE-vottun á framleiðslu fyrirtækisins.

VIÐHALD

Trégluggar: Líta skal eftir tréverki og fúgum (glerjunarefnum) einu sinni á ári og skal viðhald vera eftir þörfum. Tréverk, sem ekki er haldið við, dregur í sig vatn og er hætt á því að rúðan eyðileggist og timbrið brotni niður vegna veðrunar. Jafnframt er hætta á fúa. Glerlistar úr timbri hafa tilhneigingu til að losna, og skal því festa þá með skrúfum með mesta millibili 150 mm og mestu fjarlægð frá horni 50 mm. Við meðhöndlun yfirborðs skal þess gætt að borið sé vel á glerlista.

Plast- og álgluggar: Plast- og álgluggar þurfa ekkert viðhald annað en reglulega hreingerningu. Fyrir ál er hún sérstaklega nauðsynleg til að koma í veg fyrir tæringu þar sem óhreinindi geta safnast saman. Fúguefni. Óþétt fúguefni er ein algengasta orsök skemmda á einangrunargleri. Þegar rifa hefur myndast í fúgunni, og efni hennar byrjað að brotna niður og losna frá gleri eða glerlista, þarf að endurnýja fyllinguna. Glerjunarborða eða gúmmílista til glerjunnar er ekki hægt að gera við, en haft skal í huga að þessi efni brotna niður með tímanum vegna áhrifa sólar, regns og vinda, þannig að ástæða er til þess að hafa auga með þeim og skipta um þegar og ef þörf krefur.

Toppfylling: Toppfylling kallast 3ja- 4ra mm fúga sem er ofan á glerjunarborðanum og liggur milli glerlista og glers. Ef endurnýja þarf toppfyllinguuna er nauðsynlegt að fylgja leiðbeiningum framleiðenda efnanna um notkun þeirra.

Gluggahreinsun: Hreinsun á gleri tilheyrir ekki beint viðhaldi, en getur, augljóslega haft áhrif á endingu glers, því ber að gefa eftirfarandi ráð: Ef málning hefur borist á glerið er hægt að fjarlægja hana með gluggasköfum án þess að glerið skemmist. Einnig má nota stálull í grófleika, 00 eða 000.

Athugið! Verjið glerið fyrir múrefnum og málningu, t.d. með plastfilmu.

Áríðandi upplýsingar um FIRESWISS eldvarnargler

Athugið að við geymslu, flutning og ísetningu FIRESWISS eldvarnarglers, verður að gæta sérstakrar varúðar. Það má alls ekki glerja eldvarnargler ef kantlímband er skemmt eða rofið, þar sem límbandið ver rúðuna fyrir raka í falsinu, mikilvægt er að meðhöndla glerið með varúð til að forðast að skemma límbandið, þegar eldvarnargler er sett í glugga verður eldvarnarglerið að snúa inn, skoðið merkingar á rúðunni, forðist að láta eldvarnarrúðu standa úti í sólarljósi, en sólarljós má alls ekki skína beint á eldvarnarglerið, nauðsynlegt er að breiða yfir eldvarnargler ef það stendur úti á rekka.

Athugið að föls verða alltaf að vera loftræst.

Hafið ávallt í huga að eldvarnargler er mjög viðkvæm vara.

EINANGRUNARGLER, MEÐFERÐ OG GEYMSLA

Alls ekki er ætlast til að gler sé geymt utanhúss. Gler skal ávallt geyma í skjóli fyrir regni og sól til að koma í veg fyrir skemmdir á límkanti rúðunnar vegna bleytu og sólargeisla og til að fyrirbyggja að gler brotni vegna hitaspennu af völdum sólar.

Ef geyma á gler á gólfi, upp við vegg eða annars staðar,  er nauðsynlegt gera viðeigandi ráðstafanir setja eitthvað t.d. tré eða annað á milli til að hlífa glerinu við skemmdum og gæta þess að glerið sitji vel á öllum kantfletinum. Kantar á gleri eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hnjaski.

Viðtakandi skal skoða glerið við móttöku, ef ekki er gerð athugasemd við ástand glersins telst sending samþykkt og varan heil.

Við mælum með að fagmenn annist glerísetningu. Leitið til viðeigandi gluggaframleiðanda varðandi leiðbeiningar um glerísetningu.

Varist bráðabirgðaglerjun, framkvæma skal fullnaðarglerjun strax. Endingartími einangrunarglers er í samhengi við gæði ísetningarinnar. Minnum á að mjög mikilvægt er að loftræsta fals til að halda því þurru, setja þarf undirleggsklossa á rétta staði undir báðar skífur rúðunnar. Alls ekki setja límefni (t.d. sílikon) á límkant rúðunnar þar sem þau geta skemmt límingu hennar. Límkantur rúðu má ekki vera óvarinn.