Skilgreining á göllum

Skilgreining á göllum í einangrunargleri.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands Rb (31). 110

0 Almennt
0,1 Blað þetta fjallar um skilgreiningu á göllum í einangrunargleri eins og þeir eru nefndir í ábyrgðarskilmálum glerframleiðenda. Gallar í einangrunargleri koma til vegna mistaka í framleiðslu á glerplötunni, við samlímingu á glerinu, við flutning og geymslu, ísetningu og við gluggapússun. Ekki er rakið hvernig skemmdir verða til á mismunandi framleiðslustigum, meðhöndlun eða við frágang á glerinu, í staðinn eru mismunandi gallar taldir upp og þeir skilgreindir.

1 Móða
1,0 Móða utan á gleri getur myndast þeim megin sem snýr inn í herbergið. Á stæðan fyrir því að þetta gerist er að loftrakinn er of hár og þá þarf að lofta út. Á veturna er þetta þekkt þegar verið er að spara hitunarkostnað með því að lofta minna en nauðsynlegt er og þá myndast móðan neðst á glerinu. Móða getur einnig myndast í óupphituðu rými en þá þarf að hita upp til þess að rakinn hverfi. Móða inni á milli glerja kemur þegar líming hefur gefið sig og þá þarf að skipta um rúðu, ekki vegna þess að einangrunargildi hennar hefur minnkað heldur vegna þess að það sést illa í gegnum hana.

2 Spéspeglun
2,1 Spéspeglun á ekki að sjást í rúðum þegar horft er í gegnum þær úr tveggja metra fjarlægð undir 45° horni. Spéspeglun myndast í rúðum vegna þess að þrýstijöfnun er ekki eins og hún á að vera og þarf þá viðkomandi framleiðandi að laga rúðuna. Vegna þess að rúðan er loftþétt hefur lofthitinn áhrif +a lögun rúðunnar. Við +20 stiga hita er hún bogin út en í kulda er hún bogin inn. Það er að segja þykkri eða þynnri í miðjunni. Þessar breytingar geta kallað fram spéspeglun þegar horft er í gegnum rúðuna en þá er ekki litið á það sem galla.

3 Punktgallar
3,1 Punktgallar geta verið bólur  eða korn í glerplötunni. Gallarnir eru metnir út frá ákveðnum reglum þar sem mismunur er gerður á því hvort gallinn er út við kant eða við miðju. Kanthluti glersins er 10% af flatarmáli rúðunnar reiknað frá jaðri hennar allt í kring. Miðhlutinn er það sem eftir er af rúðunni. Í miðhlutanum má enginn galli vera meira en 10mm og saman lagt mest 15mm á m2. Í kanthlutanum á tilsvarandi hátt 15mm og 45mm/m2.

4 Yfirborðsgallar
4,1 Rispur eru leyfðar sem sjást í dagsbirtu upp að þriggja metra fjarlægð.

5 Mislitun (Möttun)
5,1 Yfirborðsgalli vegna bleytu á lager er ekki leyfilegur.

6 Óhreinindi
6,1 Óhreinindi á milli glerja eins og þurrkefni, glerbrot, fingraför og annað sem getur fallið til við framleiðslu eru ekki leyfileg.

7 Kantgallar
7,1 Eins og t.d. uppúrbrot (flöskun) eru leyfileg upp að 8mm. Uppúrbrot inn að límingu eru ekki leyfð. Galli má ekki vera þannig að hann geti valdið broti á rúðunni.

8 Ljósbrotsspeglun (Interferens, brewster-striber)
8,1 Ljósbrotsspeglun eru óreglulegar regnboga rendur sem erfitt er að koma auga á og sjást eingöngu þegar horft er skáhallt gegnum rúðuna. Þær teljast ekki til galla.

9 Brotskaði
9,1 Glerframleiðendur taka ekki á sig brotskaða eftir að rúðan hefur verið afhent og áður en hún er sett í. Glerframleiðendur taka heldur ekki ábyrgð á rúðum, sem brotna eftir að þær eru komnar í, nema að hægt sé að sanna það að brotið eigi sér stað vegna galla frá framleiðslu (sjá kafla um kantskaða) og þarf kvörtun að hafa borist um það áður en eitt ár er liðið frá afhendingu.

10 Brestir
10,1Þegar gluggar eru hannaðir er reiknað með því að glerið geti hreyfst vegna hitabreytinga eins og annað náttúrulegt efni. Ef einangrunargler verður fyrir mikilli hitabreytingu geta komið þenslusprungur. Þetta getur gerst þegar límt er á rúðuna miðar, auglýsingaspjöld eða skilti eða ef rúðan er máluð að hluta eða öllu leyti og einnig ef límt er á hana plastfilma sem eins konar sólarsía.

11 Tilvísanir
Rb tækniblöð
Rb (31). 103, 1976
Rb (31). 105, 1979
Rb (31). 106, 1981
Rb (31). 107, 1981
Rb (31). 104.2, 1982
Rb (31). 107, 1985
Rb (31). 108, 1985
Rb (31). 109, 1985
Rb (31). 120, 1991
Rb (31). 130, 1991
Rb (31). 140, 1991
Rb/1/89, 1989
Sérrit
(29)1977
(34)1991

SKOÐUNARVIÐMIÐ FYRIR EN ISO12543-6 skv. tilvísun EN14449

Skoðun verður að fara fram 2 metrum frá og hornrétt á glerið sem staðsetja skal lárétt framan við mattan, gráan flöt við ámóta birtu og dreifða dagsbirtu. Ath.: Gallarnir eru sýnilegri við svartan bakgrunn og skæra lýsingu.

Skoðið samkvæmt ofangreindri aðferð og merkið sýnilega galla.
Gallar sem ekki sjást úr þessari fjarlægð teljast ekki gallar.
Merkta galla ber að meta samkvæmt viðmiðunum hér að neðan.

Allt gler
Blettagallar minni en 0.5 millimetrar og línulegir gallar minni en 30 millimetrar teljast ekki gallar. Hér teljast blettagallar eiga við um matta bletti, bólur og aðskotahluti og línulegir gallar eiga við um rispur eða klór.

Gallar minni en 5 millimetrar mega vera á rammasvæðinu.

EW30/EW30 Impact
Gallar minni en 1 millimetri teljast ekki gallar, nema 4 eða fleiri séu
með minna en 200 millimetra millibili.

1 galli minni en 3 millimetrar má vera á hverjum fermetra, þ.e., ef glerið er 2 fermetrar eru tveir gallar innan marka.

Engir línulegir gallar stærri en 30 millimetrar mega sjást.

EW60/EW30 Maxi
Gallar minni en 1 millimetri teljast ekki gallar, nema 4 eða fleiri séu
með minna en 180 millimetra millibili.

Í gleri sem er minna en 1 fermetri mega vera 2 gallar minni en 3 millimetrar,  og 3 gallar mega vera í gleri sem er minna en 2 fermetrar.
Í gleri sem er meira en 2 fermetrar má vera 1.5 galli á hverjum fermetra.

Engir línulegir gallar stærri en 30 millimetrar mega sjást