Söluskilmálar Íspan ehf

Almennt:

Söluskilmálar eiga við tilboð og pantanir sem gerðar eru hjá Íspan ehf. kt. 560869-0109.
Sérstök frávik frá söluskilmálum eru einungis gild með skriflegu samþykki Íspan ehf.

Pantanir og framleiðsla:

Pantanir skulu berast Íspan ehf skriflega, í tölvupósti, á faxi eða með afhendingu skriflegra pantana í söludeild Íspan ehf. Þegar pöntun er staðfest er almenna reglan sú að viðskiptavinur greiði 50% af upphæð pöntunarinnar áður en hún er sett í framleiðslu, seinni 50% upphæðarinnar greiðist áður en varan er afhent. Í þeim tilvikum sem uppsetning er á vegum Íspan, greiðast 50% af heildarverði pöntunar auk uppsetningakostnaðar við staðfestingu pöntunar, næstu 20% upphæðarinnar áður en uppsetning hefst og síðustu 30% upphæðarinnar við verklok.
Þar sem vara er ávallt framleidd samkvæmt málum og eða teikningum viðskiptavinar skal hann tryggja að allar upplýsingar séu réttar og staðfesta það.

Reikningsviðskipti:

Fylla þarf út umsóknareyðublað um reikningsviðskipti. Til þess verður að uppfylla kröfur Íspan ehf um tryggingar og eða veita upplýsingar um stöðu viðskiptavinar gagnvart Credit Info. Íspan áskilur sér rétt til kröfu um innágreiðslu þegar um ræðir stærri verk eða sérpantanir þó um reikningsviðskipti hafi verið samið.
Öll vanskil vegna reikningsviðskipta eru send í lögfræðiinnheimtu.
Vörur eru eign Íspan ehf þar til fullnaðargreiðsla hefur borist.

Afturköllun / breytingar pantana:

Staðfestri pöntun má eingöngu breyta eða afturkalla með skriflegu samþykki Íspan ehf. Ef framleiðsla pöntunar er hafin þegar afturköllun eða breyting á sér stað áskilur Íspan ehf sér rétt til að gjaldfæra á viðskiptavin breytingagjald og  eða þann kostnað sem hefur orðið til vegna pöntunarinnar.

Afgreiðslufrestur:

Er háður verkefnastöðu hverju sinni og miðast ávallt við staðfestingu pöntunar, þegar öll mál og eða teikningar hafa borist Íspan ehf. og eru staðfestar af viðskiptavini. Einnig þarf innágreiðsla að hafa borist þegar það á við. Athugið að uppgefinn afhendingardagur pantana er alltaf áætlun en ekki staðfest loforð um afhendingu, þar sem ýmsar ástæður geta tafið afhendingu pöntunar, t.d. hráefnisstaða, verkefnastaða eða ófyrirséð atvik. Kostnaður sem mögulega hlýst af töfum á afhendingu er aldrei á ábyrgð Íspan ehf. og er því ekki bættur.
Hafi vara ekki verið sótt innan 4 mánaða frá staðfestingu pöntunar, áskilur Íspan ehf. sér rétt til að farga vörunni á kostnað viðskiptavinar, auk þess innheimtist kostnaður vegna framleiðslu vörunnar.

Skilmálar:

Öll mál og teikningar eru á ábyrgð viðskiptavina. Auk þess er val glertegunda, glerþykkta, festinga og allar tæknilegar útfærslur varðandi pöntunina einnig á ábyrgð viðskiptavinar. Hafi fullnægjandi upplýsingar ekki borist og til fellur vinna við undirbúning framleiðslu, t.d. vegna skapalóna eða annars sem þarf til að framleiðsla geti hafist, áskilur Íspan ehf. sér rétt til að gjaldfæra kostnað við slíkt.
Viðskiptavinum er bent á að láta burðarþolshönnuði reikna út glerþykktir, útfæra festingar t.d. vegna handriða eða annars, vegna viðkomandi bygginga. Varðandi gler í handrið, hurðir, glugga sem ná niður að gólfi og við aðrar þær aðstæður sem krafist er sérstakra lausna varðandi fallvarnir eða annað öryggi, er algjörlega á ábyrgð viðskiptavinar / byggingaraðila að sjá til þess að þær kröfur séu uppfylltar. Íspan ehf. ber enga ábyrgð á að slíkar kröfur séu uppfylltar.
Ath: Hert einfalt gler uppfyllir ekki skilyrði byggingareglugerða um fallvörn.

Mál og upplýsingar sem ekki eru afhentar skriflega, t.d. með símtali, eru á ábyrgð kaupenda.
Fermetraverð miðast að jafnaði við rétthyrndar rúður, en aukagjald (álag) reiknast á allar skárúður, bogarúður, hringskornar rúður og skapalónsrúður, að lágmarki 40% en allt að 100% eftir lögun glersins. Lágmarkssölueining glers er 0,35 m² pr. Stk.
Hraðafgreiðsla: Ef óskað er eftir flýtimeðferð pöntunar, „Hraðafgreiðslu“ greiðist sérstakt aukagjald (álag) 30% eða að lágmarki kr. 3,000,- m/VSK.

Afgreiðsla, flutningur ofl:

Almennt er miðað við að afgreiðsla vöru fari fram í afgreiðslu Íspan ehf. að Smiðjuvegi 7, 200 Kópavogi. Íspan ehf. annast einnig útkeyrslu á Höfuðborgarsvæðinu gegn gjaldi auk þess tekur Íspan ehf. lágmarks gjald fyrir pökkun og frágang vöru á flutningsrekka og afhendir til viðurkenndra flutningsaðila. Viðskiptavinur ber ávallt allan kostnað af flutningum nema um annað sé sérstaklega um samið. Kaupandi ber einnig ábyrgð á því að flutningsrekkum sé skilað til Íspan ehf. Smiðjuvegi 7, 200 Kópavogi, að notkun lokinni og ber allan kostnað af flutningi rekka til baka. Týnist rekki eða skemmist er það á ábyrgð kaupanda. Rekkar eru lánaðir viðskiptavinum Íspan ehf þeim að kostnaðarlausu í allt að 7 daga. Að þeim tíma liðnum reiknast leigugjald samkvæmt gjaldskrá Íspan fyrir hvern byrjaðan sólarhring. Á sama hátt tekur viðkomandi fulla ábyrgð á þeim rekkum sem hann hefur í sinni umsjá. Íspan ehf sækir rekka til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu en nauðsynlegt er að hafa samband í síma 54-54-300 eða senda tölvupóst á ispan@ispan.is til þess. Viðskiptavinir á landsbyggðinni verða að senda rekkana á sinn kostnað til: Íspan ehf. Smiðjuvegi 7, 200 Kópavogi. (Íspan sækir rekka á flutningastöðvar í Reykjavík, án aukagjalds.)

Ábyrgð:

Kaupandi / viðskiptavinur ber ábyrgð á gleri eftir að hafa fengið það afhent í afgreiðslu Íspan ehf að Smiðjuvegi 7, 200 Kópavogi, eða af flutningabílum Íspan ehf. Engin brotaábyrgð er á gleri eftir afhendingu þess.
Ábyrgð á einföldu gleri og öðrum vörum er samkvæmt almennum lögum um lausafjárkaup. Ábyrgð á límingu einangrunarglers er fimm ár að uppfylltum skilyrðum, sjá nánar ábyrgðarskilmála áwww.ispan.is  þar sem einnig má finna upplýsingar um „Skilgreiningu galla“. Söluvörur Íspan ehf. eru CE-vottaðar og framleiddar samkvæmt ÍST EN stöðlum.
Viðskiptavinum er bent á að skoða vöruna vandlega við afhendingu til að tryggja að hún uppfylli kröfur viðkomandi og sé óskemmd. Sé vara / gler gallað og gallinn sé sannarlega á ábyrgð Íspan ehf. bætir Íspan ehf. vöruna með nýrri samskonar vöru / gleri. Ekki er bættur kostnaður við ísetningu, uppsetningu, eða annar kostnaður sem kann að hljótast vegna gallaðrar vöru.

 

Tilboð:

Öll tilboð sem Íspan ehf. afhendir viðskiptavinum skal fara með sem trúnaðarmál milli Íspan ehf. og viðskiptavinar. Hafa skal í huga að öll tilboð eru gerð með fyrirvara um innsláttarvillur og breytingar á gengi.
Taki viðskiptavinur tilboði skal hann staðfesta það með tölvupósti eða með undirskrift sinni á tilboðsblaðið. Almennt gilda tilboð í 30 daga frá dagsetningu tilboðsins. Ef mismunur verður á pöntuðu magni og magni í tilboði gildir einingaverð tilboðs.