Upplýsingar um glerjun

Ísetning einangrunarglers

Mikilvægt er að vel sé vandað til ísetningar á einangrunargleri. Ef ekki er fenginn fagmaður til þess að annast hana, er mjög mikilvægt að fólk afli sér nákvæmra upplýsinga um hvernig framkvæma skuli verkið. Hér að neðan er farið lauslega yfir nokkur atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga:

Nauðsynlegt er að gluggafalsið sé vel þurrt og hreint.

Mjög áríðandi er að loftræsta gluggafalsið vel, annað hvort með því að bora niður úr botnfalsinu 8 – 12mm göt með ca. 200-300mm millibili, eða fræsa raufar í undirlistann með samsvarandi millibili. Þá er einnig nauðsynlegt að bora loftræstigöt niður úr opnanlegum fögum.

Það er svolítið mismunandi hvaða aðferð menn nota til þess að “þétta glerið”, en algengast er að nota gúmmilista sem límdir eru í fals og á glerlista og svo er “toppfyllt” yfir þá með yfirkítti. Þá er einnig algengt að notaðir séu “ídregnir þéttilistar” að utanverðu, í stað límdra, og yfir þá þarf ekki yfirkítti. Ef toppfyllt er með yfirkítti á ný fúavarða og ómálaða glugga er rétt að grunna falsið og glerlistana með grunni sem framleiðandi yfirkíttisins mælir með eða samþykkir. ATH. Kítti og/eða önnur þéttiefni mega ekki liggja að samlímingu glersins og því má alls ekki fylla glerfalsið með kítti.

Glerlistar fyrir “fast gler” eru yfirleitt “þverskornir”, en ekki geirskornir. Undir og yfirlisti eru skornir í “stíft mál” en hliðarlistar skornir milli þeirra með ca. 3-4mm hlaupi í hvorn enda og með þeim halla sem á undir yfirlista er. Glerlistar í opnanleg fög eru hinsvegar iðulega geirskornir.

Borað er í glerlistana, fyrir festiskrúfum, með ca. 150mm millibili og er fyrsta skrúfa höfð ca. 80 mm frá enda listans. Nota skal koparskrúfur eða ryðfríar stálskrúfur, yfirleitt 4/40 í fasta glerið og 4/30 í opnanleg fög, svalahurðir o.þ.h.

Þegar þéttilistar eru límdir í fals og á lista eru þeir látnir nema við efri brún gluggafals og/eða glerlista ef ekki á að toppfylla með yfirkítti. Ef hinsvegar á að toppfylla yfir þéttilistann eru þéttilistar staðsettir 3-5mm neðan við efri brún. Mjög áríðandi er að innri þéttilistinn sé vel þéttur og best er að hafa einungis eina samsetningu á honum og beygja hann óslitinn fyrir hornin. Taka má úr listanum V laga bita, inn í miðjan lista, við horn og beygja hann þannig fyrir hornin.

Tveimur undirleggsklossum er komið fyrir undir hverri rúðu og eru þeir staðsettir ca. 1/5 af breidd rúðunnar, frá hvorum enda. Þá er rúðunni komið fyrir í falsinu á undirleggsklossunum og hún jöfnuð til í falsinu. Gæta þarf vel að því að rúðan liggi ekki út í gluggafalsið heldur hafi 3 – 4 mm fríhlaup allan hringinn. Þá eru yfir- og undirlistar skrúfaðir fastir, síðan hliðarlistarnir og þeir jafnaðir með ca. 3 mm hlaupi í hvorn enda, milli undir- og yfirlista. Nauðsynlegt er að þrýsta glerlistum það þétt að rúðunni að þéttilistarnir fái ca. 30-40% pressun.
Nánari upplýsingar um ísetningu og frágang einangrunarglers er hægt að sjá á Rb-blaði, Rb(31).120, frá Rannsóknastofnun Byggingariðnaðarins.

 

Einangrunargler – meðferð og geymsla

Viðtakandi skal skoða glerið við móttöku, ef ekki er gerð athugasemd við ástand glersins telst sending samþykkt og varan heil.

Alls ekki er ætlast til að gler sé geymt utanhúss. Gler skal ávallt geyma í skjóli fyrir regni og sól til að koma í veg fyrir skemmdir á límkanti rúðunnar vegna bleytu og sólargeisla og til að fyrirbyggja að gler brotni vegna hitaspennu af völdum sólar.

Ef geyma á gler á gólfi, upp við vegg eða annars staðar, er nauðsynlegt gera viðeigandi ráðstafanir, setja eitthvað t.d. tré eða annað á milli til að hlífa glerinu við skemmdum og gæta þess að glerið sitji vel á öllum kantfletinum. Kantar á gleri eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hnjaski.

Við mælum með að fagmenn annist glerísetningu. Leitið til viðeigandi gluggaframleiðanda varðandi leiðbeiningar um glerísetningu.

Varist bráðabirgðaglerjun, framkvæma skal fullnaðarglerjun strax. Endingartími einangrunarglers er í samhengi við gæði ísetningarinnar. Minnum við á að mjög mikilvægt er að loftræsta fals til að halda því þurru, setja þarf undirleggsklossa á rétta staði undir báðar skífur rúðunnar. Alls ekki setja límefni (t.d. sílikon) á límkant rúðunnar þar sem þau geta skemmt límingu hennar. Límkantur rúðu má ekki vera óvarinn.