Uppsetning sturtuglerja og hurða

Einfaldar og almennar leiðbeiningar.

 

Sturtugler.

 1. U-prófílar límdir á vegg og gólf: rétt er að mæla lengdir prófíla áður en uppsetning hefst, til að tryggja að þeir séu í réttum lengdum. Gólfprófíll er límdur fyrst, síðan veggprófíll en passa þarf að hafa hann réttan í lóðréttri stöðu. Límingin þarf að fá að þorna í uþb einn sólarhring áður en gler er límt í. Notað er baðsílikon eða límkítti, einnig er hægt að nota sérstakt límband (double tape) MP Mount tape til að flýta fyrir límingu.
 2. Glerið sett upp: plastklossar settir undir glerið í gólfprófílinn, sílikon borið í prófílinn, setjið sílikon ofan í prófílinn út við ytri hlið (fjær sturtunni) góðan taum alla leið. Síðan er glerið sett í prófílinn og stillt af. Þrýstið glerinu alveg upp að ytri hlið prófíls. Að lokum er toppfyllt með sílikoni meðfram glerinu alla leið að innanverðu (sturtumegin). Einnig þarf að toppfylla meðfram prófílnum við gólf og vegg, alla leið. Nú þarf aftur að láta sílikonið þorna í uþb einn sólarhring áður en sturtan verður notuð.
 3. Öryggisslá sett upp: best er að tilla glerfestingunni ofan á glerið, leggja rörið/stöngina við, stilla með hallamáli og merkja á vegg eða loft hvar á að bora fyrir veggfestingu/loftfestingu. Bora síðan og festa festinguna, bera rörið/stöngina við aftur og merkja það til að saga í rétta lengd. Sagið með járnsög eða slípirokk. Setjið síðan rörið/stöngina upp og herðið vel allar skrúfur.
 4. Ábending: Góð aðferð þegar á að toppfylla meðfram glerinu er að setja málningarlímband á glerið meðfram prófílnum áður sílikonið er sett á, setja siliconið síðan á, strjúka með fingri eða plastsköfu yfir og fjarlægja síðan límbandið, þá verður toppfyllingin fallegri.

   

  Sturtuhurð.

  1. Best er að setja lamir á hurðina, setja hurðina á réttan stað, muna að hafa plastklossa undir til að stilla hurðina í rétta hæð, stilla hurðina af, samkvæmt hallamáli og merkja á vegginn fyrir borun, taka hurðina til hliðar, bora fyrir skrúfum, ef veggur er flísalagður er best að bora gegnum flísar án þess að hafa högg á borvélinni.
  2. Takið lamirnar af hurðinni, festið þær á vegginn, smeygið hurðinni aftur í lamirnar, stillið hurðina í lamirnar og herðið festiskrúfur mjög vel, til að fyrirbyggja að hurðin fari að síga í lömunum.
  3. Stillið lamirnar sjálfar þannig að hurð stöðvist á réttum stað, þegar henni er lokað.

   

  Clarvista sturtugler

  Um uppsetningu Clarvista sturtuglerja og hurða gilda allar sömu aðferðir og hér hefur verið lýst, en passa þarf að Clarvista glerið snúi rétt, þ.e. húðin snúi inn í sturtuna. Glerið á að vera merkt.

   

  Að sjálfsögðu eru sérfræðingar okkar tilbúnir að veita nánari upplýsingar ef þarf.